oktober_2010_55

Gamla barnaskólanum í Hrísey hefur verið breytt og er innréttaður núna með vinnustofu og fjórum svefnherbergjum til

útleigu fyrir listamenn hvaðanæva úr heiminum. Norðanbál á og rekur Gamlaskóla og er markmiðið að listamenn fái

möguleika til þess að vera í Hrísey og hafi aðgang að þessum einstaka stað, gegn vægu verði. Hrísey er staðsett í miðjum

Eyjafirði með töfrandi fallegu útsýni á fjallahringinn allt í kring. Eyjan er afar heillandi og fallegur staður sem allir ættu

að fá að upplifa og njóta. Gamliskóli, eins og hann er kallaður, er staðsettur miðsvæðis í þorpinu í Hrísey, í u.þ.b.10 mín.

göngulengd frá bryggjunni þar sem ferjan leggst að.

 

Um eyjuna
Eyjan er 7,0 km2 stór og 7,5 km löng. Einu almenningssamgöngurnar eru ferjan Sævar sem siglir frá Árskógssandi nokkrum

sinnum á dag út í eyjuna og tekur siglingin um 15 mín. en einnig eru áætlunarferðir með strætó frá Akureyri að Árskógssandi.

 

Í þorpinu er ýmis þjónusta: veitingastaður, verslun, pósthús og sundlaug svo eitthvað sé nefnt, allt í göngufjarlægð frá

Gamlaskóla. Náttúrufegurð er mikil, dýralíf fjölbreytt, gönguleiðir margar og misjafnar og bjóða upp á einstaka upplifun.

Í Gamlaskóla er allt sem til þarf til ánægjulegrar dvalar:  fjögur aðskilin svefnherbergi, vinnusalur,

nettenging fyrir alla, stofa/eldhús, sturta, þvottavél o.fl.